Útgerðarfélag Reykjavíkur hf.: Útgáfa á nýjum skuldabréfaflokki UR 260415

9 April 2024

Útgerðarfélag Reykjavíkur hf. („ÚR” eða „félagið” ) hefur lokið sölu á nýjum skuldabréfaflokki UR 260415 sem gefinn er út undir útgáfuramma félagsins. Skuldabréfin verða tekin til viðskipta á Aðalmarkaði Nasdaq Iceland.

Skuldabréfaflokkurinn UR 260415 er óveðtryggður sem ber fljótandi vexti tengda 1 mánaða REIBOR að viðbættu 1,30% vaxtaálagi með lokagjalddaga þann 15. apríl 2026. Seld voru skuldabréf fyrir 1.000 m.kr. á pari (genginu 100,0).

Greiðslu- og uppgjörsdagur er fyrirhugaður mánudaginn 15. apríl 2024.

Útboðið var undanþegið gerð lýsingar á grundvelli a-,b-, c- og d-liðar, 4. mgr. 1. gr. reglugerðar Evrópusambandsins og ráðsins (ESB) nr. 2017/1129 um lýsingu sem birta skal þegar verðbréf eru boðin í almennu útboði eða tekin til viðskipta á skipulegum markaði, sem innleidd var með lögum nr. 14/2020.

ÚR er sjávarútvegsfyrirtæki sem leggur áherslu á arðsemi og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Með stefnumótandi fjárfestingum í aflaheimildum, traustum sjávarútvegsfyrirtækjum og fyrirtækjum í haftengdri starfsemi, hefur félagið byggt upp eignir að verðmæti fyrir tæplega  470 milljónir evra.

Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR:

„Við hjá ÚR erum gríðarlega þakklát fyrir traustið sem fjárfestar halda áfram að sýna félaginu og ljóst að innlendur fjármálamarkaður hefur trú á íslenskum sjávarútvegi.”

Arctica Finance hf. hefur umsjón með útboðinu, útgáfu og töku hinna nýju skuldabréfa til viðskipta ásamt því að annast innheimtu og uppgjör viðskiptanna í tengslum við útboðið.